Við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði
Þann 27. júní 2024 undirrituðu forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, fjármálaráðherra, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, formaður stjórnar Tækniskólans og skólameistari Tækniskólans skuldbindandi samkomulag um byggingu nýs Tækniskóla við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Starfsemi Tækniskólans er nú dreifð á níu mismunandi byggingar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Með byggingu nýs Tækniskóla er ætlunin að sameina alla starfsemi skólans á einum stað, í framúrskarandi og nútímalegu húsnæði, sem ætlað er að efla iðn-, starfs- og tækninám á Íslandi enn frekar.
Skólinn mun rísa á gróskumiklu svæði í námunda við fjölbreytta atvinnustarfsemi og íbúabyggð og verður lögð rík áhersla á góð tengsl við nærsamfélagið.
EFLA, fyrir hönd Skólastræti Tækniskólans ehf. auglýsir eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði á hönnun nýs húsnæðis Tækniskólans við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Um er að ræða fullnaðar hönnun á 30.000 m2 skólabyggingu; arkitekta-, verkfræði- og lóðarhönnun.
Starfsemi Tækniskólans er nú dreifð á níu mismunandi byggingar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Með byggingu nýs Tækniskóla er ætlunin að sameina alla starfsemi skólans á einum stað, í framúrskarandi og nútímalegu húsnæði, sem ætlað er að efla iðn-, starfs- og tækninám á Íslandi enn frekar.
Útboðsgögn verða afhent í rafræna útboðskerfinu Ajour frá og með mánudeginum 20. janúar 2025 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 föstudaginn 14. mars 2025.
Hér má sjá slóð á útboðsvefinn.
Vanti þig aðstoð með að búa til aðgang eða notkun á Ajour útboðskerfinu má setja sig í samband við EFLU afgreidsla@efla.is
Umsjónaraðilar útboðs eru Hildur Freysdóttir og Júlíus Karlsson. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.
Skólastræti Tækniskólans ehf. boðar til kynningarfundar um forval vegna hönnunar nýs Tækniskóla við Flensborgarhöfn sem auglýst var 20. janúar. Kynningarfundurinn verður haldinn 12. febrúar kl. 15:00 hjá Golfklúbbnum Keili að Steinholti 1, Hafnarfirði.
Vinsamlegast skráið ykkur á fundinn í gegnum skráningarform.
Boðið verður upp á léttar veitingar. Fundinum er streymt til þeirra sem þess óska í skráningu.
Gert er ráð fyrir að reisa 30.000 fermetra byggingu í tveimur áföngum. Þá er gert ráð fyrir frekari stækkunarmöguleikum á lóðinni í framtíðinni þannig að skólinn geti á endanum orðið allt að 50.000 fermetrar að stærð.
Með nýjum skóla verður hægt að taka á móti fleiri nemendum og bjóða þeim og starfsfólki fyrsta flokks aðstöðu og aðbúnað. Þá verður hægt að mæta ungum nemendum sem eru að koma beint úr grunnskóla mun betur, ekki síst með tilliti til félagslífs og skólasamfélags. Þá er lögð rík áhersla á að skapa framúrskarandi umhverfi til nýsköpunar og þróunar í samvinnu við nærsamfélagið.
Rík áhersla hefur verið lögð á að virkja starfsfólk Tækniskólans í frumhönnun skólans og má vænta þess að innri rýni starfsfólks og nemenda muni hafa veruleg áhrif á endanlegt skipulag og kennsluaðstöðu í nýja skólahúsinu. Frumhönnun skólans hefur verið unnin í samstarfi við Eflu og hollenskan arkitekt sem hefur mikla reynslu af hönnun sambærilegra skóla.
Við frumhönnun hússins hefur mikil áhersla verið lögð á sveigjanleika byggingarinnar til að mæta breytingum í námi, góða innivist, að byggingin sé umhverfisvæn og notaleg og bjóði jafnt nemendur, starfsfólk og nærsamfélagið velkomið. Öll frumhönnun byggir á hugmyndafræðinni um skólastræti þar sem skólinn hverfist í kringum bjartan gang, nokkurs konar stræti, þar sem myndast líflegt samfélag nemenda úr mismunandi undirskólum og greinum.
Haustið 2017 voru fyrstu skref tekin í átt að nýjum Tækniskóla en þann vetur kynnti stjórnarfólk og stjórnendur skólans sér nýtt skólahúsnæði í Noregi, Danmörku og Hollandi. Þar varð hugmyndin að svokölluðu skólastræti til þar sem allir undirskólar og deildir skólans sameinast við eins konar göngugötu eins og algengt er í stærri skólum víða í Evrópu.
Í framhaldinu var stofnuð byggingarnefnd sem skipuð var þeim Guðmundi Kristjánssyni, þáverandi formanni stjórnar Tækniskólans, Jóni B. Stefánssyni fyrrverandi skólameistara og Hildi Ingvarsdóttur nýráðnum skólameistara. Í framhaldinu var leitað til verkfræðistofunnar Eflu til að vinna að undirbúningi verksins, þ.m.t. valkostagreiningu. Inn í vinnuna kom hollenski arkitektinn Harry Abels sem hefur mikla reynslu af hönnun sambærilegra skóla í Evrópu. Þá var leitað til fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Eftir ítarlega greiningu Eflu varð niðurstaðan sú að hefja samstarf við Hafnarfjarðarbæ sem lagði til að skólinn myndi rísa við Flensborgarhöfn.
Þann 7. júlí 2021 undirrituðu fulltrúar Tækniskólans, stjórnvalda og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði viljayfirlýsingu um byggingu framtíðarhúsnæðis fyrir skólann við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Egill Jónsson stjórnarformaður Tækniskólans, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar skrifuðu undir yfirlýsinguna. Í framhaldinu skipaði mennta- og barnamálaráðherra verkefnisstjórn um framtíðarhúsnæði Tækniskólans. Verkefnisstjórnin var skipuð fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Hafnarfjarðarbæjar og Tækniskólans.
Í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar var lagt upp með að skoða leiðir til fjármögnunar verkefnisins og hvernig eignarhaldi á framtíðarhúsnæði skólans verði háttað m.a. út frá rekstrarfyrirkomulagi skólans. Kostnaðaráætlanir skyldu yfirfarnar og var verkefnisstjórninni ætlað að móta framtíðarsýn um verkefnið í samhengi við stefnu og áherslur mennta- og barnamálaráðuneytisins um starfsmenntun á Íslandi. Verkefnisstjórnin hafði til hliðsjónar þá þarfagreiningu sem Tækniskólinn hafði þegar látið vinna. Hún skilaði niðurstöðum sínum vorið 2023. Samhliða var unnið að frumhönnun skólans í samstarfi við stjórnendur og annað starfsfólk skólans.
Haustið 2023 var skipuð ný byggingarnefnd en hana skipa Egill Jónsson stjórnarformaður Tækniskólans fyrir hönd SI, Einar Sigurðsson stjórnarmaður Tækniskólans fyrir hönd SFS, Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins og Jón B. Stefánsson verkefnastjóri nýbyggingarmála fyrir nýjan Tækniskóla. Nefndin vann ötullega að framgangi málsins veturinn 2023–2024.
Þann 27. júní 2024 undirrituðu Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Egill Jónsson formaður stjórnar Tækniskólans og Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans skuldbindandi samkomulag um byggingu nýs Tækniskóla við Flensborgarhöfn.
Næstu skref eru frekari vinna varðandi fjármögnun ásamt undirbúningi hönnunar og framkvæmdar með áætluð verklok árið 2029.
Samkvæmt samkomulaginu mun Skólastræti Tækniskólans starfa til almannaheilla, standa fyrir byggingu og rekstri fasteignarinnar og leigja skólanum hana til afnota.
Formaður stjórnar Skólastrætis Tækniskólans er Egill Jónsson stjórnarformaður Tækniskólans.
Skólastræti Tækniskólans ehf. var stofnað í ágúst 2024. Tilgangur félagsins er bygging, rekstur og eignarhald fasteigna utan um starfsemi Tækniskólans, skóla atvinnulífsins og tengdur rekstur í samræmi við samkomulag milli ríkisins, Hafnarfjarðarbæjar og Tækniskólans.
Þá hefur stjórn Skólastrætis ehf. ráðið Guðmund Örn Óskarsson í starf framkvæmdastjóra félagsins.
Guðmundur Örn er með meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá Álaborgarháskóla og á að baki fjölbreyttan starfsferil sem stjórnandi í atvinnulífinu. Hann hefur sinnt ráðgjafastörfum síðastliðið ár en leiddi rekstrarsvið Controlant í gegnum gríðarlegan vöxt á tímum heimsfaraldurs. Þá gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs hjá Alvogen/Alvotech samstæðunni í 7 ár og þar áður 10 ár hjá Össuri/Emblu.
Nánari upplýsingar um ráðningu framkvæmdastjóra má sjá á vefsíðu Tækniskólans.
Áætlað er að verkið taki fjögur ár og að verklok verði árið 2028–2029.
Gert er ráð fyrir að nýtt húsnæði verði tekið í notkun á árunum 2028–2029. Því mun flutningur í nýtt húsnæði ekki hafa nein áhrif á nemendur sem innritast í skólann haustið 2024 og eru ólíkleg til þess að hafa áhrif fyrir meginþorra nemenda skólans sem hefja nám haustið 2025.
Tækniskólinn gerir ráð fyrir að bjóða upp á allt það nám sem nú fer fram áfram. Sameining alls náms undir einu þaki er þó til þess fallið að bjóða upp á enn fjölbreyttari námsleiðir og samsetningu náms.
Flensborgarhöfn er aðalhöfnin í Hafnarfirði. Þar er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á næstu árum í blandaðri byggð. Sjá nánar á síðu Hafnarfjarðarbæjar. Skólinn mun rísa við hlið Hafrannsóknarstofnunar.
Nei, aðeins er búið að frumhanna og byggir allt myndefni á síðunni á þeirri hönnun. Meðan unnið var að því samkomulagi sem undirritað var í júní 2024 var tíminn nýttur til frumhönnunar byggingarinnar í samstarfi við verkfræðistofuna Eflu og Abels & partners sem hefur mikla reynslu af hönnun sambærilegra bygginga. Unnin hefur verið þarfagreining í samvinnu við starfsfólk skólans og grunnurinn lagður að þeirri hugmyndafræði og því skipulagi rýma sem forsvarsmenn skólans leggja áherslu á. Þessi grunnur mun tvímælalaust nýtast vel inn í hönnun skólans enda eru með honum lagðar mikilvægar línur.
Það er verkefni nýrrar stjórnar og framkvæmdastjóra Skólastrætis Tækniskólans að ákvarða hvernig útboði á hönnun og framkvæmd verður háttað.
Allt teiknað myndefni sem birtist hér eru svokallaðar „concept teikningar“ sem unnar voru í frumhönnunarferli á vegum arkitektastofunnar Ables & Partners í samvinnu við EFLU verkfræðistofu. Þær gefa góða hugmynd um þær áherslur sem eru lagðar með nýju skólahúsnæði, svo sem bjart, hlýlegt, opið, fjölbreytt og breytanlegt. Þá er lögð mikil áhersla á samvinnurými, fjölbreytt kennslurými, góða aðstöðu fyrir félagslíf, íþróttaaðstöðu, fyrirlestrasal og framtíðarstofur auk þess sem mikið er lagt upp úr góðri hljóðvist og að húsið sé vistvænt, bæði á byggingartíma og í rekstri. Í gegnum húsnæðið liggur hjarta skólans, svokallað skólastræti em allir eiga erindi inn á.
Endilega hafið samband með því að fylla út fyrirspurnarformið og við svörum við fyrsta tækifæri.